Karamellusósa

January 2, 2019

Þá er nýtt ár hafið og bloggið mitt búið að liggja í dvala yfir hátíðirnar. Ég reyndi eftir fremsta megni að fylgja mínu mataræði yfir þær þó að einhver skipti hafi verið erfiðari en önnur. Eitt af því sem ég ákvað að fá mér ekki var jólagrauturinn, en mamma mín gerir einn besta jólagraut sem ég hef smakkað. Með honum er svo borin fram heit súkkulaðisósa. Bæði hrísgrjónin og mjólkurmaturinn er ekki paleovænt fyrir utan hvað hrísgrjónin fara illa í magann á mér, svo að grauturinn varð að fara. Í staðinn gerði ég minn eiginn ís úr laktósafríum rjóma. Ég mun ekki skrifa um hann þar sem það er ekki heldur paleo. 

 

 

Með ísnum langaði mig að hafa einhverja góða sósu og ákvað að prófa að gera karamellusósu. Mikið er ég fegin að ég gerði það þar sem ég er búin að nota sósuna bæði út á ísinn, í kaffið mitt til að gera karamellulatte og með berjum sem eftirrétt.

 

 

Ég get alveg séð fyrir mér að blanda þessa sósu einnig út í heimagerða kókosjógúrt. Ég er einmitt með eina sem er að gerjast núna og get prófað þetta á. Nú eða með eplum til að dýfa í. Möguleikarnir eru endalausir.

 

 

Beint úr ísskáp er sósan þykkfljótandi, en ef hún er hituð örlítið verður hún lin og mjúk. Bragðið er alveg jafngott hvort heldur sem er. Þessi sósa er líka vegan.

 

Innihald

1 bolli kókospálmasykur

1 bolli kókosrjómi*

1/4 tsk salt

1-2 tsk vanilludropar

 

*Gott er að setja eina dós af kókosmjólk í ísskápinn í svolitla stund, þannig skilur kókosmjólki sig í kókosrjóma og -vatn. Passa þarf að blanda ekki saman kókosrjómanum við kókosvatnið þegar dósin er opnuð og rjóminn tekinn úr.

 

Aðferð

  1. Setjið kókossykur, kókosrjóma og salt í lítinn pott og hrærið yfir meðalhita á meðan sykurinn bráðnar.

  2. Náið upp suðu, en passið að hafa ekki of mikinn hita.

  3. Látið malla í 10-15 mínútur. Sósan þykknar þegar hún stendur.

  4. Bætið að lokum vanilludropum út í og geymið sósuna í ísskáp.

Please reload

Nýjustu póstarnir

January 18, 2019

Please reload

Eldri póstar

Please reload

Merki