Hildur Arnar

Ég er fædd og uppalin í Hlíðunum í Reykjavík, flutti í Kópavoginn í upphafi búskapar míns og manns míns en er búin að búa í Hafnarfirði síðan sumarið 2002. Ég bý þar nú með manni mínum og tveimur börnum.

 

Ég lauk B.Ed. námi í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2006 og Diplómagráðu í Stjórnun menntastofnana vorið 2017. Í upphafi árs 2019 sótti ég nám hjá Dr. Sears Wellness Institute í Bandaríkjunum og hlaut viðurkenningu sem heilsumarkþjálfi.

 

Ég hef unnið við bókhald og ýmis önnur störf, en er kennari í hjartanu. Ég vann sem deildarstjóri og aðstoðarleikskólastjóri á Heilsuleikskólanum Hamravöllum um nokkurt skeið. Þar fékk ég tækifæri til að vinna að ýmsum skemmtilegum verkefnum, m.a. að útgáfu bæklings í samstarfi við nokkra aðila í ýmsum löndum Evrópu. Úr varð bæklingurinn um þroska barnsins, en hann má sjá hér: 
https://issuu.com/zitamajor/docs/throski_barnsins 

Ég hef lengi haft áhuga á heilsu og heilbrigðu líferni og hef viðað að mér ýmiskonar þekkingu þess efnis í gegnum tíðina.

Sagan mín

Frá því ég man eftir mér hef ég átt við mjólkuryskuróþol (laktósaóþol) að stríða sem versnaði smám saman með árunum. Sem barn gat ég notið mjólkurvara í hófi en um þrítugt var ég alveg hætt að þola laktósa, jafnvel í litlu magni. Um það leyti jukust meltingarvandræði mín og hef ég í mörg ár gengið lækna á milli í leit að lausn og svörum. Þó ég væri búin að taka allan laktósa úr mataræðinu var ég enn að berjast við verki, krampa og uppþembu.

Vorið 2017 fór ég loksins til læknis sem gat gefið mér einhver svör. Meltingarlæknirinn minn ráðlagði mér að taka út brauð og pasta, hrísgrjón og kartöflur. Hann sagði mér að ég ætti að borða að mesta lagi eina brauðsneið á dag og þá einungis mjög grófa eins og heilkjarnarúgbrauð. Ég spurði eins og annað fólk "Hvað á ég þá að borða?" Svarið hans: "Bara mat!"

Paleo

Þegar ég var búin að fylgja þessum ráðleggingum að mestu í átta mánuði (þó ég hafði laumað einstaka svindlmáltíð inní) ákvað ég að taka mataræðið skrefinu lengra. Mér fannst ég ekki alveg góð og þurfti eitthvað til að styðja mig við og leitaði mér frekari upplýsinga. Þá fann ég paleo mataræðið og ákvað að prófa það. Margt af því sem fjallað er um í paleo mataræði tengdi ég vel við (lestu um paleo mataræði hér) og því tók ég þessa ákvörðun. Í upphafi fannst mér erfiðast að taka brauðið alveg út. Pastað var jú aðeins erfitt, en ég hef sætt mig við að það er lítil fórn að færa fyrir miklu betri líðan. Þar sem ég er með mjólkursykuróþol hafði ég áður tekið út allan mjólkurmat hjá mér. Í þau skipti notaði ég oftast soyamjólk í kaffið og borðaði stundum aðra vöru sem staðgengil, t.d. soyajógúrt. Þegar ég tók ákvörðun um að fara út í að fylgja paleo mataræðinu fannst mér ekki erfitt að taka allar mjólkurvörur aftur út. Annað var leikur einn. Við hjónin höfum alltaf verið dugleg við að elda máltíðir frá grunni og þó þær hafi oft innihaldið eitthvað af ofannefndu sem ég ætlaði nú að forðast, þá var lítið mál að hliðra aðeins til eða sleppa því sem ekki passaði inn í. 

Vinnan endalausa

Paleo mataræðið hjálpaði mér mikið og ég var mun betri. Ég varð þó aldrei alveg góð en var alveg sannfærð um að ég væri bara ekki að standa mig nógu vel. Ég hélt áfram að fá ráðleggingar frá meltingarlækni og í byrjun árs 2019 átti ég enn einn tímann hjá honum. Eftir að hafa hlustað á mig lýsa því sem ég var búin að tengja við verki og óþægindi í meltingu stakk hann upp á að ég skyldi prófa nikkel lágt fæði. Þegar hann spurði mig hvort ég væri með nikkel ofnæmi skyldi ég ekki hvernig það kom málinu við, en ég hafði ekki svo löngu áður farið í ofnæmispróf og þá hafði ekki mælst nein svörun við nikkel á húðprófi. Ég ákvað að fara eftir ráðleggingum hans enda alveg að gefast upp. Nýjustu upplýsingar eru þær að þetta virðist ganga vel hjá mér sem fær mig til að halda að almennt nikkelofnæmi (Systemic Nickel Allergy Syndrom eða SNAS) eigi við mig. Þetta krafðist enn meiri aðlögunar mataræðis og það tekur stundum á, sérstaklega á þeim sviðum þar sem fæða með lágu nikkelinnihaldi rekst saman við mínar hugmyndir um hollt mataræði (og paleo).

Ekkert er einfalt en ávinningurinn mikill

Því má ekki gleyma að ekki er hægt að fjalla um einn sjúkdóm eða greiningu án samhengis við annað í lífi einstaklings. Þannig verð ég að hafa hugfast að ég þjáist einnig af legslímuflakki (endometríósu), hef verið greind með astma og exem auk dýraofnæmis. Hvað sem er í raun að hrjá mig er það ljóst að breyting á mataræði og lífstíl í heildina hefur gert gríðarlega mikið fyrir mig á mörgum sviðum. Fyrir utan betri líðan í meltingarvegi má nefna að ég hef mun minnkandi einkenni exems í húð og astminn horfinn og að auki er ég miklu orkumeiri en áður.

Hafðu samband
  • Instagram
  • Snapchat
  • Facebook
  • Twitter
  • Linked-in

©2018 by Hildur Arnar. Proudly created with Wix.com